Orðskýringar

Athugasemdir EES-EFTA-ríkjanna
Ein þeirra leiða sem EES-EFTA-ríkin hafa til þess að taka þátt í mótun löggjafar ESB er að senda athugasemdir til stofnana Evrópu­sam­bands­ins á meðan stefnumótun í þýðingarmiklum málum fer fram. Dæmi­gerð athugasemd af hálfu EES-EFTA-ríkis felst í stuttri greinargerð og uppástungum við tillögur framkvæmdastjórnarinnar, s.s. grænbækur eða frumvörp.
Aðlögun ESB lagagerða
Með aðlögun ESB lagagerðar er átt við að tiltekin ákvæði viðkomandi gerðar skuli orðast á vissan hátt að því er varðar EES-samninginn. Aðlögun er oftast beitt til þess að laga viðkomandi gerð að ramma EES-samningsins eða undirstrika lagalega stöðu EFTA-ríkjanna innan EES, en aðlögun kann einnig að varða réttindi og skyldur stjórnvalda í aðildarríkjum ESB eða stofnana ESB eða mæla fyrir um fyrirkomulag samstarfs milli ESB- og EFTA-stoðar EES.
Ákvarðanir Sameiginlegu EES-nefndarinnar (e. JCD)
Lagagerðir sem hafa þýðingu að því er varðar efnislegt gildissvið EES-samn­ings­ins eru teknar upp í viðauka EES-samn­ings­ins með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í 1. mgr. 102. gr. EES er kveðið á um að um leið og lagagerð ESB sem hefur þýðingu að því er varðar efnislegt gildissvið EES-samn­ings­ins er samþykkt skuli sameiginlega EES-nefndin taka ákvörðun um breytingu á viðkomandi viðauka við EES-samninginn í því skyni að tryggja að löggjöfinni sé beitt samtímis á öllu EES-svæðinu.
Áætlunarnefndir ESB
bera ábyrgð á þróun og stjórnun áætlana Sambandsins utan marka fjórfrelsisins. Sjá 81. gr. EES-samningsins.
EES viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópu­sam­bands­ins
Vikulegt lögbirtingablað sem inniheldur texta sem varða EES frá stofnunum EFTA og ESB og er gefið út á íslensku og norsku á vef EFTA-skrifstofunnar.
EES-EFTA-ríkin
EFTA-ríkin innan EES eru þrjú af fjórum ríkjum innan vébanda EFTA – Ísland, Liechtenstein og Noregur – sem eru aðilar að EES-samningnum. Sviss er fjórða EFTA-ríkið en á ekki aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þess í stað er samskiptum Sviss og ESB hagað með nokkrum tvíhliða samningum.
EES-EFTA-sérfræðingar
Sérfræðingar frá EFTA-ríkjunum innan EES sem eiga sæti í vinnuhópum eða sérfræðingahópum EFTA og leggja sitt af mörkum við upptöku lagagerða í EES-samninginn.
EFTA
Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) eru fjölþjóðleg ríkjasamtök Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss sem komið var á fót til að efla fríverslun og efnahagssamvinnu. Eitt af helstu verkefnum EFTA er framkvæmd EES-samn­ings­ins.
EFTA-dómstóllinn
EFTA-dómstóllinn er með aðsetur í Lúxemborg og hefur lögsögu yfir EES-EFTA-ríkjunum þremur. Lögsaga EFTA-dómstólsins samsvarar að miklu leyti lögsögu dómstóls Evrópu­sam­bands­ins yfir ríkjum ESB. Undir valdsvið hans heyra m.a. samningsbrotamál sem Eftirlitsstofnun EFTA höfðar gegn EFTA-ríki innan EES að því er varðar innleiðingu, beitingu eða túlkun reglna EES-réttar, ráðgefandi álit varðandi túlkun reglna EES-réttar ef dómstólar í EES-EFTA-ríkjunum fara fram á það og kröfur um ógildingu ákvarðana sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur tekið.
EFTA-skrifstofan
Höfuðstöðvar EFTA-skrifstofunnar eru staðsettar í Genf, en einnig eru skrifstofur í Brussel og Lúxemborg. Skrifstofan í Brussel aðstoðar við framkvæmd EES-samningsins, m.a. með undirbúningi vegna upptöku nýrrar löggjafar í EES-samninginn og aðstoð við undirbúning þátttöku í ákvarðanatökuferli innan ESB við lagasetninguna.
Efnisleg aðlögun
Efnisleg aðlögun felst í fráviki eða breytingu á kerfi eða reglum sem mælt er fyrir um í lagagerðinni sem um ræðir. Efnisleg aðlögun getur til dæmis verið nauðsynleg svo lagagerð samræmist stjórnskipulegum takmörkunum EES-EFTA-ríkjanna og tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Hún er frábrugðin tæknilegri aðlögun sem tryggir að þátttaka EES-EFTA-ríkjanna í innri markaðinum sé endurspegluð en án þess að það hafi afleiðingar á löggjöfina efnislega.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)
Hefur eftirlit með því að skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum séu virtar á Íslandi, í Liechtenstein og Noregi, og stendur vörð um réttindi einstaklinga og fyrirtækja samkvæmt EES-samningnum.
Fastanefnd
Fastanefnd EFTA-ríkjanna er vettvangur þar sem EES-EFTA-ríkin ráðfæra sig hvert við annað og ná sam­eigin­legri niðurstöðu áður en þau eiga fund með ESB í sameiginlegu EES-nefndinni. Í henni eiga sæti sendiherrar gagnvart ESB frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi og áheyrnarfulltrúar frá Sviss og Eftirlitsstofnun EFTA. Undir nefndinni eru fimm undirnefndir og eru þónokkrir vinnuhópar undir þeim.
Flýtimeðferð
Innleiðing lagagerða sem ekki fela í sér altæk viðfangsefni, krefjast ekki aðlögunartexta og kalla ekki á stjórnskipuleg skilyrði af hálfu aðildarríkjanna. EES-EFTA-ríkin hafa skilgreint lista yfir flokka lagagerða sem teljast hæfa þessari málsmeðferð. EFTA-skrifstofan getur einnig haft frumkvæði að flýtimeðferð vegna lagagerða sem ekki falla undir fyrirframskilgreindu flokkana, ef hún telur að lagagerðirnar uppfylli skilyrðin.
Listi yfir drög ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar sem eru tilbúnar (e. Long list)
Listinn sýnir drög ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar sem búið er að senda til vinnslu og umsagnar hjá utanríkisþjónustu Evrópu­sam­bands­ins (EEAS), og taldar eru tilbúnar til samþykktar af hálfu sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Málsmeðferð í nefndum ESB
Nefndir sem í eiga sæti fulltrúar frá aðildarríkjum ESB sem aðstoða framkvæmdastjórnina við undirbúning framkvæmdargerða (lagalega bindandi gerða sem gera fram­kvæmda­stjórn­inni kleift - undir eftirliti nefnda sem skipaðar eru fulltrúum ríkja ESB - að setja skilyrði sem tryggja einsleitni við beitingu laga ESB). Sjá 100. gr. EES-samningsins.
Mótun löggjafarinnar
Möguleikar EFTA-ríkjanna innan EES á að taka beinan þátt í stöðugri þróun innri markaðar ESB eru bæði grundvallarþáttur og einstakt sérkenni EES-samningsins. Þetta fyrirkomulag hefur sérstaka þýðingu fyrir EES-EFTA-ríkin þar sem þau taka ekki þátt í ákvarðanatöku í lagasetningarferlinu innan ESB.
Sameiginlega EES-nefndin
Sameiginlega EES-nefndin kemur að jafnaði saman 6–8 sinnum á ári og er megin sam­starfs­vett­vangur­inn vegna EES-samningsins, auk þess sem nefndin ber ábyrgð á því að tryggja skilvirka framkvæmd samningsins. Nefndin er vettvangur samráðs og ákvarðana sem eru teknar einum rómi um að taka lagagerðir ESB upp í EES-samninginn. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar Evrópu­sam­bands­ins (utanríkisþjónustu ESB (EEAS)), EES-EFTA-ríkin þrjú (að jafnaði á stigi sendiherra) og áheyrnarfulltrúi frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
Samningur um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn)
Evrópska efnahagssvæðið sameinar aðildarríki Evrópu­sam­bands­ins og þrjú EFTA-ríki – Ísland, Liechtenstein og Noreg á einum sameiginlegum markaði með frjálsa vöru­flutn­inga, þjónustuflutninga, fjármagnsflutninga og frjálsa för launþega. EES-samningurinn tryggir einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri jöfn réttindi og skyldur á innri markaðinum. Samningurinn var undirritaður í maí 1992 og öðlaðist gildi í janúar 1994.
Samræmingardeild vegna EES (Liechtenstein)
Samræmingardeild vegna EES annast málefni sem tengjast EES-samstarfinu dags daglega, einkum að því er varðar lagaleg álitaefni. Deildin annast samræmingu við upptöku og innleiðingu lagagerða sem varða EES. Deildin heyrir undir forsætisráðherra.
Stjórnarsvið framkvæmdastjórnarinnar
Stjórnarsviðin (Directorate-General (DG)) eru deildir innan framkvæmdastjórnar Evrópu­sam­bands­ins sem bera ábyrgð á tilteknu málefnasviði.
Stjórnskipuleg skilyrði
Ef lagagerð sem kallar á breytingar á innlendri löggjöf í einhverju EFTA-ríkjanna innan EES, (þ.e. með nýjum lögum eða breytingum á gildandi lögum), er tekin upp með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þarf þjóð­þing­ið að samþykkja hana áður en hún öðlast gildi. Þetta er er inntakið í því að tilkynnt sé um „stjórnskipuleg skilyrði“ þegar lagagerð er tekin upp í samninginn.
Stöðluð málsmeðferð
Staðlaða málsmeðferðin á við um allar lagagerðir sem ekki falla undir flýtimeðferð eða einfaldaða málsmeðferð (síðastnefnda málsmeðferðin á aðeins við um hluta lagagerða á sviði matvæla og heyra undir vinnuhóp EFTA um matvælakeðjuna).
Sérfræðingahópar framkvæmdastjórnar ESB
Hópar skipaðir sérfræðingum frá aðildarríkjum ESB sem eru fram­kvæmda­stjórn­inni til ráðgjafar við undirbúning frumvarpa, stefnumarkandi skjala og framseldra lagagerða (lagalega bindandi gerða sem gera fram­kvæmda­stjórn­inni kleift að bæta við eða breyta hluta lagagerða ESB sem hafa lítið vægi, svo dæmi sé tekið, í því skyni að skilgreina nákvæmar ráðstafanir). Sjá 1. mgr. 99. gr. EES-samningsins.
Sérstök nefnd (Noregur)
Sérstök nefnd sem annast afgreiðslu EES-málefna (n. Spesialutvalg) tryggir samstarf milli ráðuneyta í Noregi.
Sérstök viðfangsefni tengd EES (oft nefnt „EEA horizontal challenges“ á ensku)
geta komið upp þegar ákvæði lagagerðar eða frumvarps hefur áhrif á efnisrétt og/eða uppbyggingu innan EES eða stofnanakerfi EES-samstarfsins. Slík sérstök viðfangsefni tengd EES geta m.a. komið upp í tengslum við ákvæði sem varða fyrirhugaða álagningu sekta af hálfu stofnunar ESB, viðurlög á sviði refsiréttar eða ákvæði sem varða þriðju lönd.
Utanríkisþjónusta Evrópu­sam­bands­ins (EEAS)
Utanríkisþjónusta ESB gegnir hlutverki sendinefndar Evrópu­sam­bands­ins og liðsinnir formanni utanríkisþjónustunnar – æðsta fulltrúa sambandsins í utanríkis- og öryggismálum – við að framkvæma sameiginlega stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum. Utanríkisþjónusta ESB tekur þátt í samræmingu innleiðingarferlis EES fyrir hönd Evrópu­sam­bands­ins.
Útsendir innlendir sérfræðingar
Sérfræðingar frá EFTA-ríkjunum innan EES eru sendir til starfa hjá fram­kvæmda­stjórn­inni og sumum stofnunum hennar í 2–4 ár, annað hvort í gegnum þátttöku EES-EFTA-ríkjanna í áætlunum ESB eða með tvíhliða samningum. Sérfræðingarnir vinna fyrir stofnanir ESB á meðan þeir eru útsendir og leggja sitt af mörkum í lagasetningarferlinu með sérfræðikunnáttu sinni og þekkingu á EES-samningnum og sérstökum aðstæðum í EFTA-ríkjunum innan EES.
Vinnuhópar eða sérfræðingahópar EFTA
Vinnuhópar og sérfræðingahópar eru til aðstoðar undirnefndum á ýmsum málefnasviðum innan fastanefndarfyrirkomulagsins og eiga sérfræðingar á viðkomandi sviðum frá EES-EFTA-ríkjunum sæti í þeim. Vinnuhóparnir hafa það verkefni að fara yfir allar lagagerðir ESB sem ætlunin er að taka upp í EES-samninginn.
Viðaukar og bókanir við EES-samninginn
Samningstexti EES-samningsins felst í 129 greinum, 22 viðaukum, 49 bókunum og lokagerð. Í viðaukunum er að finna allar ESB-gerðir sem gilda á EES-svæðinu, ásamt aðlögunartextum. Í sumum bókunum samningsins eru ákvæði um tiltekin svið, s.s. reglur um uppruna vöru, samvinnu utan marka fjórfrelsisins (þátttaka í áætlunum ESB) og einfölduð tollmeðferð. Í bókun 1 er að finna altæka aðlögun sem gildir um allar lagagerðir sem vísað er til í viðaukum við EES-samninginn.
Þýðing að því er varðar EES
Lagagerðir ESB eru taldar hafa þýðingu að því er varðar efnislegt gildissvið EES-samn­ings­ins ef þær þær stuðla að markmiðum 1. gr. EES-samn­ings­ins, þ.e. ef þau varða innri markað ESB og jöfn samkeppnisskilyrði.